GULLVEIG - FORN KVENNAFRÆÐI FYRIR NÝJA TÍMA

Níu mánaða nám, þar sem þátttakendur móta og tileinka sér forn kvennafræði eða svokallaða shamaníska lífsnálgun fyrir okkar tíma og veruleika, og finna og þjálfa leiðir til að koma á og viðhalda jafnvægi í eigin lífi og umhverfi. Unnið verður með lífstilgang okkar og tengingar við allt líf og Móður Jörð. Byggt verður á þeim menningararfi sem býr í rótum okkar, þessari fléttu af norrænum, keltneskum og samískum þráðum, en einnig horft til shamanískrar nálgunar annarra menningarsamfélaga frá fornri tíð til dagsins í dag.

Unnið er með fornar sagnir, drauma í svefni og vöku, hringinn og áttirnar, ritúöl, árstíðirnar, tunglhringinn hið ytra og innra, formæður og – feður, máttardýr og máttarstaði, tré og annan gróður, stokka og steina o.fl. Tenging við náttúruna er mikilvægur hluti námsins og er námsstaður miðaður við að sú tenging sé nærtæk.  Reiknað er með að einn hópur verði starfandi á Suðvesturhorninu og annar á Norðausturlandi.

Námið er opið öllum kynjum, en áhersla verður á kvenlæga nálgun og forn kvennafræði. Gert er ráð fyrir að lágmarki 9 þátttakendum og að hámarki 18 sunnan heiða og 6 til 9 norðan heiða.

Námið hefst á haustjafndægrum í september 2019 með samveru heila helgi, þar sem hópurinn tengist, byggir upp traust og kynnist grunnhugmyndum Gullveigarnámsins. Síðan er hist að jafnaði einn dag í mánuði yfir veturinn og fram á sumar, alls 7 sinnum og lokahelgi er svo í júní 2020. Eitt einkaviðtal er innifalið í náminu.