Um Vanadísina

Vanadís – rætur okkar, draumar og auður er yfirskriftin á þeirri starfsemi sem Valgerður H. Bjarnadóttir rekur á eigin vegum.  

Vanadís er titill gyðjunnar Freyju, sem var dís þeirra goða sem kölluðust Vanir. Vanir voru náttúrutengd goð, jarðargoð, og hjá þeim voru kynin jöfn, Freyja og Freyr voru tvíburar og jöfn að virðingu. Vanagoðin voru dýrkuð í tengslum við frið, fegurð, töfra og ást og segja má að þannig rammi nafnið inn helsta grundvöll og markmið starfsemi Vanadísar. 

Vanadís stendur fyrir námskeiðum og lengra námi, ráðgjöf, handleiðslu, hópavinnu, verkefnastjórn og viðburðum af ýmsu tagi, og hefur verkefnið þann megintilgang að skapa aukið jafnvægi og jafnrétti með því að  tengja okkur betur við rætur okkar, drauma og þann auð sem við búum öll yfir en nýtum oft ekki nema takmarkað. 

Námskeiðin eru flest sniðin að konum, en þó eru nokkur námskeið sem ætluð eru öllum kynjum og einnig eru námskeið sem sniðin eru að sérstökum hópum. Námskeiðin eru flest haldin á íslensku og á Íslandi, en einnig er boðið upp á námskeið á ensku, bæði hérlendis og erlendis.

Á námskeiðunum er fléttað saman umfjöllun og vinnu með sjálfsmynd, sjálfsþekkingu og samskipti annars vegar og menningararf okkar og drauma hins vegar. 

Valgerður er leiðbeinandi á öllum námskeiðunum en fær til liðs við sig gestakennara af og til og er í samstarfi við fleiri í einstökum verkefnum s.s. Draumsögu.

Handleiðsla faghópa og ráðgjöf til einstaklinga, stofnana, félaga og hópa er hluti af starfsemi Vanadísar.  Í þeirri vinnu byggir Valgerður á menntunarbakgrunni sínum úr félagsráðgjöf, kynjafræðum, leiklistarfræðum, draumafræðum, sálarfræði, trúarheimspeki og menningarsögu, auk fjölbreyttrar starfsreynslu.

Vanadís býður einnig upp á hópavinnu fyrir þau sem hafa sótt námskeiðin þar sem hægt er að þjálfa þá færni sem fengist hefur á námskeiðunum, s.s. draumahópa, gyðjukvöld, draumferðir o.fl. 

Vanadís er til húsa að Ásatúni 44,  600 Akureyri, en starfar víða um land og lönd. 

Nánari upplýsingar á www.facebook.com/Vanadisin

Netfang: vanadis@vanadis.is  sími: 895 3319