Valgerður H. Bjarnadóttir

Mynd: Oscar Chuberre - Birkið og VHB

Valgerður H. Bjarnadóttir  - konan á bak við verkefnið 

Vanadís - rætur okkar, draumar og auður

Sérsvið

Sjálfsstyrking, sjálfsmynd, samskipti og sjálfsþekking; goðsagnir, gyðjumenning, ævintýri, femínísk menningarsaga og trúarheimspeki; kvenfrelsi og jafnrétti; draumar og draumavinna; sjamanismi

Menntun

Félagsráðgjafi frá Sosialhögskolen Bærum, Noregi 1980

BA í heildrænum fræðum með áherslu á draumafræði frá California Institute of Integral Studies í San Fransiskó 1996

MA í femínískri trúarheimspeki og menningarsögu með áherslu á norræna goðafræði og gyðjutrú frá CIIS 2001

Styttra nám og námskeið í sálarfræði, leikhúsfræðum, sjamanisma, draumafræðum, tungumálum (enska, norræn tungumál, franska), kennslufræðum, fjölskylduráðgjöf, Jungisma o.fl.

Starfsreynsla

Ráðgjöf einstaklinga og hópa, verkefnisstjórn og stjórnun opinberra stofnana og deilda, rekstur eigin fyrirtækis, kennsla unglinga og fullorðinna, stjórnmál, leiklist, alþjóðasamskipti, félagsstarf, starf með útlendingum á Íslandi, móður- og ömmuhlutverk

Stutt æviágrip

Ég fæddist í þennan heim 24. janúar 1954 á heimili ömmu minnar og afa við Hríseyjargötu á Akureyri. Ólst upp á Akureyri og hef búið þar góðan hluta ævi minnar, með nokkrum hléum þó. Sem barn bjó ég um tíma í Englandi. Eftir stúdentspróf stundaði ég nám í sálarfræði við HÍ í eitt ár og brá mér svo til Frakklands þar sem ég gluggaði í frönsku og leikhúsfræði meðfram ýmsum störfum. Þaðan hélt ég til Noregs. Ég útskrifaðist 1980 sem félagsráðgjafi frá Sosialhögskolen Bærum.

1996 lauk ég BA gráðu í heildrænum fræðum (Integral Studies) frá California Institute of Integral Studies í San Francisco, með áherslu á draumafræði. Síðan stundaði ég MA-nám í femínískri trúarheimspeki og menningarsögu (Women’s Spirituality) við sama skóla. Þar lagði ég áherslu á að finna tengsl úr íslenska sagnaarfinum við kvenímyndir og trúarminni frá öðrum menningarheimum. Ég lauk náminu 2001 með ritgerðinni Vanadís, Völva, Valkyrja – Images of the Divine from the Memory of an Islandic Woman. Ritgerðin fjallar um leitina að þráðum fornevrópskrar gyðjumenningar, sem hafa lifað og lifa enn í íslenskri menningu. Hún kom út á bók í Þýskalandi 2009 og er fáanleg m.a. á Amazon. 

Um tíma stundaði ég nám í nútímasjamanisma hjá Lynn V. Andrews, Carlos Castaneda og fleirum í Ameríkunni og bætti síðar við þá þekkingu mína hjá Caitlín Matthews í Englandi, en Caitlín hefur í samstarfi við eiginmann sinn John Matthews sérhæft sig í keltneskum fræðum, þ.á.m. sjamanisma. Fleira gott fólk hefur miðlað mér þekkingu úr sínum sjamanísku brunnum á liðnum árum. 

Ég starfaði á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri að loknu náminu í félagsráðgjöf. Stýrði svo íslenska hluta norræna jafnréttisverkefnisins Brjótum múrana frá 1985-1990. Kenndi eitt ár við Gagnfræðaskóla Akureyrar og var svo fyrsti jafnréttis- og fræðslufulltrúi Akureyrar til 1995. Þá brá ég mér til San Fransiskó í nám og bjó þar í rúm tvö ár. Eftir námið í San Fransiskó stýrði ég Menntasmiðjunni um skeið og síðan Jafnréttisstofu til ársins 2003.  Frá 2003 hef ég starfað sjálfstætt. 

Ég hef um áratuga skeið starfað að málefnum kvenna og jafnrétti kynjanna á ýmsum vettvangi. Í því sambandi hef ég lagt áherslu á að þróa óhefðbundnar aðferðir í fullorðinsfræðslu, með sérstakri áherslu á námsnálgun kvenna og sjálfsstyrkingu. Í samvinnu við vinkonu mína Karólínu Stefánsdóttur var námskeiðið Lífsvefurinn spunnið, ofið og haldið fyrir konur um allt land og víðar og er enn í fullu fjöri. Menntasmiðju kvenna stofnaði ég í starfi mínu sem jafnréttis- og fræðslufulltrúi Akureyrar 1994 og hef þróað áfram ásamt fleiri góðum konum. Ég hef verið virk í kvennahreyfingunni og stjórnmálum, tók m.a. þátt í stofnun Jafnréttishreyfingarinnar á Akureyri, Kvennaframboðsins á Akureyri og Kvennalistans og hef tvívegis setið í bæjarstjórn Akureyrar, fyrst fyrir Kvennaframboðið og síðar fyrir Vinstrihreyfinguna grænt framboð.

Frá 2003 hef ég verið með eigin rekstur undir heitinu Vanadís. Þú getur fræðst nánar um  verkefnið Vanadís - rætur okkar, draumar og auður, á þessari vefsíðu. Ég hef verið virk í félagsstarfi á ýmsum vettvangi. m.a. tók ég þátt í að stofna Mardöll - félag um menningararf kvenna og Félag sjálfstætt starfandi fræðimanna á Norðurlandi eða AkureyrarAkademíuna.   

Frá 2011 til 2016 starfaði ég í Reykjavík yfir vetrartímann, var farfugl og fór norður á sumrin. Um tíma rak ég kaffihúsið Ugluna í Skógum í Fnjóskadal, og starfaði nokkur sumur í Davíðshúsi á Akureyri. Ég bjó í nokkur ár í Fnjóskadal, en er nú flutt aftur til Akureyrar og starfa að mestu þar, en einnig sunnan heiða, austan og vestan og stundum utanlands. Ég held námskeið, sinni ráðgjöf, skipulegg viðburði, kenni og held fyrirlestra á ýmsum vettvangi, auk skrifta.  Haustið 2017 kom ég á fót heils vetrar námi í gyðjufræðum, Brísingameni, og ásamt Elísabetu Lorange námi í draumfræðum, Draumsögu.  Þegar Brísingameninu lauk óskuðu konur eftir framhaldi og til varð Gullveig - nám í fornum kvennafræðum fyrir nýja tíma, sem einnig er heils vetrar nám. 2020 bætist svo við þriðja námsleiðin, Djúpúðga - auður rótanna og sú fjórða 2021, Kærleikur og Viska - arfmyndir gyðjunnar í kristni. Þessar námsleiðir eru framhaldsnám fyrir þær sem hafa lokið Brísingameni eða sambærilegu námi um sögu gyðjumenningar. 

Ég elska starfið mitt, nýt þess að vera með því fólki sem sækir námskeiðin mín eða aðra þjónustu, en ég þrífst ekki nema ég geti nært mig í villtri náttúru af og til.  Ég nýt þess að búa á Akureyri, en í Fnjóskadalnum á ég mínar sælustundir, nýt þess að vera ein með sjálfri mér eða með fjölskyldu og vinum, tengist jörðinni, fuglunum og stjörnunum, stunda skriftir, undirbý námskeið og rækta lífsgarðinn minn.