Gyðjuslóðir Frakklands

Kvennaferð Vanadísar sumarið 2019
21. - 28. júní 2019
Leiðsögukona:
Valgerður H. Bjarnadóttir, félagsráðgjafi og MA í gyðjufræðum
Dvalarstaður: Goujounac í Lothéraði

Frakkland býr yfir minjum og minningum um tugþúsunda ára sögu gyðjumenningar, allt frá gyðjunni með hornið frá Laussell og Lascaux hellisins, til hinar dulúðugu Svörtu meyjar og madonnu, sem er í raun lifandi gyðja í kristinni menningu og sem óvíða lifir eins sterkt og einmitt í Frakklandi.

Í þessari vikuferð á gyðjuslóðir Frakklands, sem hefst á fullu tungli og lýkur á Jónsmessu, tvinnum við saman fróðleik og upplifanir, sjálfsskoðun, samveru og næringu.

Í litlum kvennahópi ræktum við líkama, huga, tilfinningar og anda, tengjumst sjálfum okkur, hver annarri, náttúrunni, draumunum okkar og sögu og ímynd kvenna í tugþúsundir ára.

Við dveljum í gömlu nýuppgerðu húsi í þorpinu Goujounac í hinu fagra héraði Lot. Þaðan förum við í dagsferðir að skoða minjar um gyðjuna í 40 þúsund ár, en dveljum suma daga í friði og ró í fögru umhverfinu, lærum um þessa sögu og hvernig hún endurspeglar sjálfar okkur og getur styrkt og dýpkað sjálfsmynd okkar. Við njótum líka náttúrunnar, fáum okkur göngutúra um þorpið og nágrenni og njótum þess besta sem Frakkland hefur upp á að bjóða í mat og drykk, ýmist „heima“ eða á litlum veitingastöðum á svæðinu.

Trú á Gyðjuna allt frá hinni nafnlausu Miklugyðju, sem er svo nálæg í Lascaux fyrir um 40 þúsund árum og var grafin í stein yfir hellismunna í Laussel fyrir um 25 þúsund árum, er vel skráð í fornminjar og rit í Frakklandi. Við vitum að gyðjur eins og hin egypska Ísis, hin anatólíska Kybele, hin keltneska Epona og fleiri gyðjur Galla, og hinar grísk rómversku Venus, Mínerva, Díana o.fl. eiga sér mikla sögu í þessu landi, fram á fyrstu aldir e.kr. Þá tóku við hinar gnostísku Sófía og Magdalena og María mey, bæði hin miskunnsama hreina og bjarta og hin dulúðuga viskugyðja sem birtist sem Svarta meyjan og hefur haft mikil og djúp áhrif á menningu þessa lands. Franskar þjóðsögur segja sögu Magdalenu sem flúði til Frakklands eftir dauða Krists og eina útgáfu þeirra sagna er að finna í DaVinci lyklinum, en aðrar segja að hún hafi lifað í 30 ár sem einsetukona í helli utan við Marseille. Upphaf nornaofsókna miðalda hófust með ofsóknum gegn Köturum, gnostískum söfnuði sem leit á Magdalenu sem leiðtoga sinn ásamt Jesú, og sem skilgreindi Sófíu sem kvenhlið guðdómsins. Meðal Katara höfðu konur og karlar jafna stöðu í trúnni. Þessari miklu sögu öndum við að okkur og skynjum í því umhverfi sem er sögusvið hennar.

Þátttaka er takmörkuð við sex til átta konur og því er gott að skrá sig sem fyrst og ekki síðar en 31. mars. Gist er í tveggja kvenna herbergjum.

Verð fyrir námskeiðið og gistingu, dagsferðir á slóðir gyðjunnar og aðgang að söfnum er kr. 130.000.- Skráningargjald er kr. 50.000.- og greiðist ekki síðar en í lok mars.
Fæði og ferðir (flug og lest) til og frá Lot er ekki innifalið í verðinu.

Mæting er að kvöldi 21. júní og brottför 28. júní. Konur sjá sjálfar um að koma sér með flugi til Frakklands (eða Barselóna) og lest áfram t.d. til Cahors og þar mun verða tekið á móti þeim og þær fluttar á áfangastað.

Skráning og nánari upplýsingar m.a. um möguleika varðandi flug og lestarferðir á netfanginu vanadis@vanadis.is