Vanadķsarsaga ķ Akademķunni (Rek og Ak)

Í tilefni af útkomu bókarinnar The Saga of Vanadís, völva and valkyrja haustið 2009, hélt ég erindi bæði í Akureyrar-og ReykjavíkurAkademíunum. Hér má sjá erindið eins og ég flutti það í Reykjavík í febrúar 2010.

 

Vanadísarsaga, völvu og valkyrju - helgar ímyndir úr minni íslenskrar konu

Valgerður H. Bjarnadóttir

Hádegisfyrirlestur í Gammablossum ReykjavíkurAkademíunnar

 5.febrúar 2010

Sögurnar og goðsagnirnar sem við erfðum og köllum okkar, eru skráðar minningar um líf og rætur einstaklinga sem upphaflega komu úr ýmsum samfélögum, en sem byggðu Ísland frá 9.öld. Flestar eru skráðar af kristnum körlum einhverjum öldum eftir að sögurnar urðu til og þau sem hafa túlkað þær á síðustu öldum,  gera það flest út frá karllægum, kristnum, bókmenntalegum, vestrænum, línulegum og rökrænum viðhorfum.

 

Sagan sem ég ætla að segja ykkur í dag er unnin upp úr MA ritgerð minni The Saga of Vanadís, Völva and Valkyrja - Images of the Divine from the Memory of an Islandic Woman, sem kom út á bók hjá Lambert Academic Publishing í Þýskalandi sl haust. Hún var lokaritgerð í því sem ég hef valið að kalla MA í femínískri trúarheimspeki og menningarsögu, vegna skorts á betri hugtökum og til að aðlaga mig mátulega að ríkjandi hefðum.  Bein þýðing á enska titlinum sem ég ber mundi vera: meistari í listum á sviði heimspeki og trúar með áherslu á helg eða andleg fræði kvenna - master of arts in philosophy and religion, concentration in women‘s spirituality.. og líklegast væri mín uppáhaldsversjón á íslensku þessi: móðir í helgum listum og kvennafræðum.. en ...

Þetta heiti á námi og sú staðreynd að ég hef valið að aðlaga menntunartitil minn að viðurkenndu munstri á okkar menningarsvæði, íslenskri akademíu, er í sjálfu sér áhugavert og um það gæti ég sagt ykkur langa sögu. Í raun er þetta ritverk að einhverju leyti einmitt umfjöllun um nákvæmlega það, eins konar uppgjör við viðurkenndar akademískar nálganir og efnistök, sem mér finnst stundum bæði leiðigjörn og lítils virði, þótt vissulega sé ákveðið aðhald nauðsynlegt.  

Í þessari bók er ég annars vegar að fjalla um ákveðið efni, sem er mér hugleikið, og hins vegar er þetta ritverk eins konar leikur að hugmynda- aðferða- og þekkingarfræði. Og þótt ég segi leikur, þá er hann ekki á nokkurn hátt léttvægur, ég meina hvert orð og sérhver óhefðbundin nálgun er mér háalvarlegt mál og þáttur í að leika það hlutverk sem ég hef valið mér í lífinu, þ.e. að vera gagnrýnin á ríkjandi kerfisskipulag, karlveldi og línulega hugsun.

Spurningin eða tesan sem er efnislegur grunnur þessa verks er eitthvað á þessa leið :

                Get ég fundið í rótunum mínum minningu um tíma sem getur verið mér og samtíðinni einhvers konar fyrirmynd fyrir framtíðina?

                Get ég í þeim arfi sem við köllum okkar sagnaarf eða menningararf fundið endurspeglun minna náttúrutengdu kvenlægu skoðana, hugsjóna og trúar?

Hin franska Simone Weil, rithöfundur, kristinn gyðingur, heimspekingur og landbúnaðarverkakona,  lagði grunn að nýrri hugmyndafræði fyrir enduruppbyggingu franska ríkisins eftir síðari heimsstyrjöldina.  Hún segir í riti sínu um einmitt það, eitthvað á þessa leið:

Að finna rótfestu er ef til vill mikilvægasta og jafnframt vanmetnasta þörf mannssálarinnar. Hún er ein þeirra þarfa sem erfiðast er að skilgreina.  Manneskja finnur rótfestu með því taka raunverulegan virkan og eðlilegan þátt í lífinu í samfélagi sem verndar í lifandi formi, ákveðinn skilgreindan auð fortíðarinnar og ákveðnar skilgreindar væntingar til framtíðarinnar".

Í bókinni reyni ég að skilgreina þann auð fortíðarinnar sem ég tel að gæti orðið grunnur að skilgreinindum væntingum okkar til framtíðarinnar. Ég var upptekin af þessu þegar ég sat og skrifaði árið 2001 og ég er ekki síður upptekin af því í dag.

Það er því engin tilviljun að ég vel Völuspá sem hinn rauða þráð eða uppistöðu í vef þessa ritverks. Völvan í Völuspá er einmitt að skilgreina fyrir Óðni auð fortíðarinnar og væntingar til framtíðarinnar. Óðinn leitar til völvunnar í öngum sínum þegar hann ræður ekki lengur við gang mála í goð-og mannheimi og hún rekur honum söguna aftur og fram og staldrar öðru hverju við í núinu. Og hún lætur ekki nægja að rekja söguna fyrir Óðni sjálfum, hún kallar til allar heimsins þjóðir, meiri og minni mögu Heimdallar.

Í vestrænni, karllægri akademíu er lögð megináhersla á að vera hlutlaus og nálgast efni ópersónulega. Mín kvenlæga sýn og nálgun er hins vegar sú að akademísk fræði séu aldrei hlutlaus og alltaf persónuleg, eins og allt annað sem við segjum og gerum. Mér finnst því einlægra að gera sem besta grein fyrir skoðunum, bakgrunni, tilfinningum og trú minni, en að leyna þessum mikilvægu upplýsingum. Þannig kemst ég næst því að vera hlutlaus eða amk heiðarleg við sjálfa mig og aðra.

Ég er fædd og uppalin að mestu á Íslandi og það fólk og þær verur og þau náttúruöfl sem fjallað er um í sagnaarfi okkar eru formæður mínar og -feður í ýmsum skilningi og til þeirra liggja rætur mínar og næra mig. Og það hvernig þau eru skilgreind meðvitað og ómeðvitað skiptir máli fyrir sjálfsmynd mína og rótfestu.

Ég er kona, líffræðilega og félagslega.  Aðferð mín við upplýsingaöflun eða rannsóknavinnu er að leita eftir, laða að mér, opna mig fyrir og taka við sæðinu,  þekkingu, efni og frjósemiskrafti hugmyndanna  ... í móðurlíf mitt; leyfa því að sameinast egginu, sem er minn innri hugmyndaheimur, innsæi, reynsla, innri þekking, draumar og tilfinningar; ganga svo með það og næra meðvitað og ómeðvitað, þar til það er tilbúið til að fæðast í orðum, myndum, hreyfingum, gjörðum, tengslum og vonandi töfrum.

Þekkingarfræðin mín er hið helga brúðkaup, sameining sæðisins og eggsins, heilans og hjartans, samruni og vefur andstæðna, auðnar og auðnu, þekkingarfræði auðar, sem ég kem betur inn á síðar.

Það er langur vegur frá því að ég afneiti rökhugsun og veraldlegri þekkingu. Ég lifi líklega einna mest í heilanum, í hugsun. Ég hef alltaf átt erfitt með að tæma hugann og nýti orku mína mikið í eilífar hugsanir og pælingar.  Ég hef mikla þörf fyrir að skilja og læra. En ég er líka tilfinningavera og dreymandi. Draumar svefns og vöku eru mér mikilvægir, sem uppspretta hugmynda og sem næring hins óræða, óskýranlega og óskiljanlega.

Þess vegna valdi ég í þessu verkefni að nýta hvort tveggja. Ég las og las og las og skrifaði og las meira og hlustaði á fólk sem veit meira um sagnaarfinn okkar en ég.  Fólk sem veit meira um menningarsögu mannkyns, um trúarbrögð og heimspeki en ég.  Fólk sem veit meira um ritgerðasmíði og akademísk vinnubrögð en ég..  en ég hlustaði líka á innsæið mitt og draumana og svo spann ég þetta allt og óf saman í eina heild sem hljómaði sönn þegar ég mátaði hana við mig.

Ég hef alltaf elskað goðsagnir og ævintýri og mannkynssagan var mitt uppáhaldsfag í skóla. En  Íslandssagan og  og norræn goðafræði heilluðu mig ekkert sérstaklega fyrr en í kringum 1990 að mig dreymdi draum.

Ég er Freyja, mikil og sterk,   íklædd hvítum kyrtli með rautt hárið. Í hvítu hofinu mínu í hlíðum fjallsins stend ég og horfi yfir fjörðinn og dalina inn af honum.  Ég sé og skil að landið er orðið auðnin ein, rauður líflaus leir hvert sem litið er.  Þá sé ég hreyfingu í fjarðarbotninum og jötunn gerður úr rauðum leir rís upp úr sænum og gengur þungum skrefum í áttina til mín. Hann heitir Auður. Ég skil og veit hvað ég þarf að gera og ég ber það undir höfuðið - minninguna um mann - , sem er bak við mig, höfuð föður míns, bróður og elsk-huga. Hann samþykkir.

Ég geng í áttina að jötninum Auði, tek í hönd hans og leiði hann inn í dalinn, sem kenndur er við hörg .  Á göngunni hvísla ég viskuorðum í eyra Auðs, því ég veit að ef ég vek hjá honum ástríðu og losta án visku, mun hann tortíma mér.  Við leggjumst í auðn dalbotnsins við hörgána og ég umvef hann ást minni og atlotum, við elskumst og smám saman finn ég líkama hans breytast úr líflausum leir í vel skapaðan og stæltan mann, goð. Um leið og ég finn lífskraft hans fylla skaut mitt renni ég fingrunum í gegnum þykkt hár hans og þegar ég opna augun horfi ég í djúp og vitur augu Óðs, mannsins sem ég missti, hef leitað að um víða veröld og grátið gullnum rauðum tárum.  Ég lít í kringum mig og sé að öll veröldin hefur lifnað við, grasi grónir balar, trjágrónar fjallshlíðar og blómum skrýdd engi, hvert sem litið er.

Ég er sæl, stolt og fullkomlega sátt við sjálfa mig og lífið.

Þá heyri ég og finn þung högg, jörðin skelfur og þegar ég lít út fjörðinn sé ég hundruðir líflausra jötna, sumra rauðra og annarra steingrárra, ganga sínum þungu líflausu skrefum  í áttina til mín úr Norðaustri. Og ég veit og skil að þetta er eilífðarverk.

---------------------------

Þegar ég vaknaði áttaði ég mig strax á skilaboðum draumsins um hringrás eyðingar og sköpunar, samruna ástar og visku, og mikilvægi þess að gefast ekki upp í því sem ég hafði valið mér sem lífsverkefni .. og ofmetnast ekki þegar vel tekst til... en það var tilfinningin fyrir því að vera Freyja sjálf og síðast en ekki síst ráðgátan um jötunn sem hét kvenmannsnafninu Auður, sem varð mér að rannsóknarefni næstu árin þarna á eftir og að lokum efni í móðurritgerð mína, MA í helgum kvennafræðum.

Hver var þessi Auður og hver var og er Freyja, gyðja formæðra minna og feðra, sem í dag er orðin að súkkulaði? Og hvaða erindi eiga þau við mig?  Auður er kvenmannsnafn, en sem karlkynsorð er það spennandi rannsóknarefni. Auður þýðir tómur og auður þýðir ríkidæmi... og draumurinn fjallaði jú um ríkidæmið sem bjó í hinum auða jötni og auðninni allri og sem samruni hins kvenlæga og karllæga kallaði til lífsins á ný, í eilífri hringrás.

En það var eitthvað meira þarna og ég fór að glugga í Snorra Eddu  - sem var orðin frekar rykfallin uppi í hillu... og þar fann ég eitt og annað áhugavert. Ég fann m.a. goðsögnina um Nótt og börn hennar, frumburðinn Auð, sem svo varð faðir dóttur hennar, Jarðar.  

Og ég fletti upp orðinu AUÐUR og fann nokkuð sem ég vissi ekki: kvenkynsnafnorðið AUÐUR er ekki lengur í notkun, nema sem eiginnafn konu ... og núna hinna ýmsu fyrirtækja og verkefna..  en þýddi, skv. orðsifjabók Ásgeirs B. Magnússonar:  dauði, hamingja, auðna, örlög, örlagadís, norn, örlagavefur

Í þessu eina orði felst e.t.v. kjarninn í ótta karlveldisins við kvenleikann, og kvenleikans við sjálfa sig, hina mögnuðu mótsögn, paradoxið..  Hún er dauðinn og hamingjan, Hún er auðna og norn, hún er í senn örlagadísin og vefurinn sem hún vefur. Hún er Nótt, svört eins og hún á kyn til, svo ég  noti orð Snorra ... og börnin hennar eru Auður, Jörð og Dagur.

Og þessa ímynd kvenleikans, Gyðjunnar, vildi ég skoða betur og kynnast nánar.  

Vanadísarsaga  er um leið saga völvunnar og valkyrjunnar, því þessar þrjár ímyndir kvenleikans í fornritunum skarast, fléttast og tengjast hvert sem litið er.

Freyja er án efa þekktust hinna norrænu gyðja, Snorri segir hana hafa lifið lengst goðanna og lifa enn þegar hann skrifar um hana á 13.öld.

Freyja hélt þá uppi blótum því að hún ein lifði þá eftir goðanna og varð hún þá hin frægsta svo að með hennar nafni skyldi kalla allar konur tignar, svo sem nú heita fróvur...               Ynglingasaga, 10. Kafli

Freyja er blótgyðja og fremur seið. En þessi fjölkynngi, er framið er, fylgir svo mikil ergi að eigi þótti karlmönnum skammlaust við að fara og var gyðjunum kennd sú íþrótt. Ynglingasaga, 7.kafli

Freyja er völva - hún fremur seið

Og á öðrum stað segir.

En Freyja er ágætust af ásynjum. Hún á þann bæ á himni er Fólkvangur heitir, og hvar sem hún ríður til vígs, þá á hún hálfan val, en hálfan Óðinn,   Á hana er gott að heita til ásta."

Freyja er valkyrja.

 Og enn annars staðar

Freyja er tignust með Frigg. Hún giftist þeim manni er Óður heitir. ...Óður fór í braut langar leiðir, en Freyja grætur eftir, en tár hennar er gull rautt. Freyja á mörg nöfn, en sú er sök til þess að hún gaf sér ýmis heiti er hún fór með ókunnum þjóðum að leita Óðs. Hún heitir Mardöll og Hörn, Gefn, Sýr. Freyja átti brísingamen. Hún er kölluð Vanadís.

Vanadís er þríein, hún er gyðjan, völvan og valkyrjan.  

Hin þríeina gyðja tengist um víða veröld tunglinu sem fæðist, fyllist og hverfur í eilífri hringrás. Verðandi, hin vaxandi, Urður, hin fulla og Skuld, hin dvínandi.  Hún tengist tíðahring konunnar sem um leið er tíðahringur Mánagyðjunnar, hún tengist örlögum, hamingju, dauða, Auði.

Tunglið hverfur í þrjár nætur af himni í mánuði hverjum, konum blæðir þær þrjár nætur í mánuði hverjum.  Elstu minjar um tímatal tengjast því eðlilega konunni.

Talan þrír og hin þríþætta gyðja er eins og fyrir örlög eilíflega tengd Óðni í goðsögnunum, samskipti þeirra tveggja segja söguna.

Freyja er völva. Hún fremur seið, er blótgyðja. Óðinn leitar oft og ósjaldan á vit völvunnar til að leita svara við því sem hann skilur ekki.

Hann hangir 3x3 nætur í trénu, blæðandi, til að öðlast kvenvisku, og hann fórnar öðru auganu fyrir viskuna. Óðinn þráir visku völvunnar. Vanir búa yfir þekkingu um seiðinn, en seiðurinn er hættulegur karlmönnum, hann veldur ergi.  Óðinn fórnar karlmennsku sinni fyrir þá þekkingu.

Freyja er valkyrja. Hún kýs hálfan valinn á móti Óðni, eins og segir í Grímnismálum.    Sú saga sem ef til vill tengir þau sterkast og segir sögu okkar best er þó sú sem erfiðast hefur reynst að túlka og skilja.  Hún fjallar um Brísingamen Freyju, menningu og stríð og á sér ýmsar birtingamyndir.

Í Völuspá er fjallað um Gullveigu og fyrsta stríðið á þessa leið:

Það man hún fólkvíg fyrst í heimi,          

er Gullveigu geirum studdu,

og í höll Hárs hana brenndu;

þrisvar brenndu, þrisvar borna,

oft, ósjaldan, þó hún enn lifir.                

                               Völuspá, 21. vísa

 

Í næstu vísu segir frá Heiði, völvunni sem margir fræðimenn telja vera aðra birtingarmynd Gullveigar og að völvan sem segir söguna gefi í skyn að hún sé Heiður. Flestir eru einnig á þeirri skoðun að Gullveig sé Freyja.

Allflestir bókmenntafræðingar og sérfræðingar á sviði Völuspár túlka svo þessa Gullveigu/Heiði á einn veg.

Sigurður Nordal, Müllenhof o.fl.:

  • - Persónugervingur gullsins (veig = kraftur), máttur gullsins í konulíki .. og þeir tengja þennan mátt við eyðingu.
  • - "Heiður/Gullveig kemur að æsa óánægju, ágirni og ófrið með Ásum" (S.N.)

Britt-Mari Näsström (Freyja - the Great Goddess of the North):

  • - Þyrst í gull, drukkinn af gulli
  • - "[She uses] seiður and all kinds of evil; and somehow she seems to demoralise them"
  • - Hún notar seið og allskyns illsku; og á einhvern hátt virðist hún valda siðspillingu meðal þeirra.

Þetta er athyglisverð niðurstaða því ekkert í kvæðinu bendir í þá átt.

Hvergi er minnst á að Gullveig hafi komið í höll Óðins til að skapa ófrið, þvert á móti bendir flest til þess að ófriðurinn verði vegna morðsins á henni. Ekkert í frásögninni bendir til þess að hún sé á nokkurn hátt sek, eða reyni að afvegaleiða þá. Er hér kannski komin endurspeglun sögunnar um Evu og eplin?

Er eitthvað í Völuspá eða öðrum heimildum frá þessum tíma, sem bendir til þess að gull sé af hinu illa?

Nei, þvert á móti, gull er hvarvetna tákn um eitthvað gott og göfugt og um eitthvað gyllt. Gull-veig er hin gullna kona eða gyðja, hinn gullni bikar eða vefur,  hin skínandi, hin æðsta, eða hin gulli skrýdda kona.

Lítum aðeins á hugmyndir um menninguna sem goðsagnir okkar spretta úr.

Marija Gimbutas var fornleifafræðingur frá Litháen, menntuð þar og í Þýskalandi, með viðbótarnám í þjóðfræði og orðsifjafræði. Hún starfaði lengst af í Bandaríkjunum og þróaði þar nýja fræðigrein sem hún kallaði archeaomythology eða fornleifagoðafræði.

 Eftir áratuga rannsóknir, mikla alþjóðlega viðurkenningu og ritun fjölda bóka um forsögulegar fornleifar í Evrópu, setti hún fram kenninguna um gyðjumenningu í því sem hún nefndi Old Europe eða FornEvrópu, og innrás IndoEvrópskra þjóðflokka sem hún kallaði Kúrgana.  Það er ekki tími hér til að fjalla um þessar kenningar nema í skeytastíl, en mikilvægt að gera þó það.  Því þessar kenningar urðu mér grunnur að nýjum skilningi á rótum okkar og þar með möguleikum og að skilningi mínum á Gullveigu.

Í gömlu Evrópu var Gyðjan margþætta í hávegum höfð, jafnvægi ríkti milli kvenna, karla og náttúru. Himininn var tengdur jörðinni, hvorki æðri né ómerkilegri  ... saman mynduðu þau helga heild. Jörðin var hin helga undirstaða, úr henni fæddist allt og til hennar sneri það aftur til að umbreytast í nýtt líf.

Það er áhugavert að Snorri virðist hafa munað á einhvern hátt þessa lífssýn. Hann segir í formála sínum að Eddu, þegar hann er að skilgreina trú forfeðranna:

Af þessu skildu þeir svo að jörðin væri kvik og hefði líf með nokkrum hætti, og vissu þeir að hún var furðulega gömul að aldartali og máttug í eðli. Hún fæddi öll kykvendi og hún eignaðist allt það er dó. Fyrir þá sök gáfu þeir henni nafn og töldu ætt sína til hennar.

  • - Snorra Edda, formáli

Þessi friður og þessi menning voru rofin með innrás Kúrganana. Gimbutas taldi þá hafa komið á hestum frá steppum Rússlands. Hestar höfðu dáið út í Evrópu á ísöld. Innrásarherirnir, sem voru vopnaðir, héldu fyrst inn í Norðaustur-Evrópu við Svartahaf, og þaðan til suðurs og svo smám saman á nokkrum þúsundum ára koma nýjar og nýjar öldur þjóðflutninga og menning kúrganana breiðist vestur og norður. Kúrganar fluttu með sér stríðsmenningu og grunninn að tvíhyggju. Karlar voru konum æðri, himininn ríkti yfir jörðinni og náttúruna skyldi beisla.

Eins og gengur tóku karlarnir sér konur úr þeirri menningu sem þeir lögðu undir sig, og þótt innrásarmenningin hafi orðið ofan á, þá leggur Gimbutas áherslu á að menningin sem var fyrir og byggði á virðingu fyrir Gyðjunni, jörðinni, umbreytingunni, mótsögninni, heildinni,  Auði... hún hvarf ekki. Hún lifði áfram í sögum, í söngvum, í hluta af tungumálinu og myndmálinu ... og  ég bæti við... í draumum fólksins. Hún lifði áfram í þeim menningararfi sem konurnar báru meginábyrgð á að vernda og rækta.  Gimbutas lýsir því sem marmaratertu úr indóevrópskum og fornevróskum lögum og bendir á að áfram hafi lifað sterk undiralda málfars og goðsagna sem ekki eru indóevrópsk að uppruna.

Vanir bjuggu skv. Snorra upphaflega í Svíþjóð hinni miklu, vestan við ána Don, sem rennur í Svartahaf. Sú á er líka kölluð Tanaís eða Vanakvísl.  Austan árinnar og Svartahafs bjuggu Æsir í Ásgarði.  

Vanir voru akuryrkjuþjóð, meðal þeirra ríkti friður, ástin var hátt metin, konur og karlar voru jöfn. Vanir voru auðug þjóð og þeir eru á ýmsan hátt tengdir gulli. Það dýr sem þeim tengist sterkast er svínið, en kettir eru líka nátengdir Vönum, og ýmsir fuglar, t.d. fálkinn, en þó sérstaklega vatnafuglar eins og álftin.

Æsir voru stríðandi þjóð. Meðal þeirra voru karlar settir yfir konur, þeir voru með mjög ákveðið lagskipt þjóðfélagsskipulag með díum og drottnum. Þeir höfðu skáldskap í hávegum.  Þeirra megindýr var hesturinn... og svo hrafninn og örninn.

Getur verið að Vanir séu minning um íbúa og menningu Gömlu Evrópu, þeirrar sem Gimbutas fjallar um sem Gyðjumenningu. Getur verið að Æsir séu minning um Kúrganana, indóevrópsku innrásarherina?

Í fornleifarannsóknum Gimbutas kemur fram að fyrstu átök og fyrsti samruni þessara ólíku menningarsamfélaga hafi átt sér stað við Svartahaf. Völuspá fjallar um þessi átök í tengslum við Gullveigu og Snorri gefur okkur mynd af því hvernig skipst er á gíslum og eftir nokkur átök rennur Vanaþjóð inn í Ásaþjóð og úr verður ein þjóð þótt áfram haldi Vanir sínum sérkennum og eru fulltrúar ásta, friðar, frjósemi og auðs   ....   og Æsir sínum og eru fulltrúar stríðs, skáldskapar og þekkingar, svo við einföldum hlutina ofurlítið.

Ég tel fullvíst að í Völuspá sé völvan að vitna til þess að Gullveig, sem ég tel vera táknmynd Freyju sjálfrar, þ.e. Gyðjan, gyðjumenningin, kemur í höll Óðins - eða inn á valdsvæði hans -  en er óvelkomin þar og er myrt þrisvar, enn og aftur .. af Óðni og hans mönnum, en þrisvar, enn og aftur, fæðist hún á ný og er til staðar þegar sagan er sögð. Völvan rifjar upp þessa sögu fyrir Óðni til að útskýra fyrir honum stöðuna sem hann er búin að koma sér í. Það er þetta morð á Gullveigu sem verður til þess að þjóðirnar stríða og til að byrja með hafa Vanir vinninginn, en að lokum sættast Vanir og Æsir, skiptast á gíslum, menning Ása verður ofan á, en Vanatrúin lifir í undirvitundinni, í menningu kvenna, í draumunum.

Saga Vanadísar, völvunnar og valkyrjunnar er saga Gullveigar, þríbrenndrar og þríborinnar, saga auðar, saga örlaga, hamingju, saga dauða gyðjunnar og endurfæðingar hennar enn og aftur.

Ótal minni um Freyju tengjast mjög greinilega minnum um aðrar gyðjur Evrópu (og víðar), gyðjum eins og Inönnu, Kybele, Isis, Brighid, Morgan, Dönu auk hinnar ónafngreindu gyðju fornaldar, móður náttúru. Þannig eru hún og birtingarmyndir hennar, dísin, völvan og valkyrjan, hlutar af  órofa heild sem varðveist hefur djúpt í minni okkar og nær aftur til Vanamenningar Evrópu hinnar fornu. Allar þrjár tengjast í sögunum þeim dýrum og táknum sem hinni fornu gyðju voru kær, svínum, köttum, fuglum... ekki síst álftinni, sem er algengasti fuglshamur Valkyrjunnar, þótt hún hafi í tengslum við það að Óðinn gerist faðir hennar og valdhafi, fengið hrafnsham.

Mín skoðun er sú að Freyja sé gott dæmi um það sem kallað hefur verið Miklagyðja - Great Goddess. Hún er best þekkt sem ástargyðja í dag, og súkkulaði auðvitað, en hún er frjósemisgyðja, hún á dætur, hún á mann þótt hún sé - eins og aðrar Miklugyðjur - ástkona sérhvers konungs og það fór fyrir brjóstið á bæði Ásum og Kristsfylgjendum. Loki nýr henni því um nasir að hún hafi sofið hjá öllum ásum og álfum, og Hyndla segir hana engu betri en Heiðrúnu, geit, hlaupandi milli hafranna. Hjalti Skeggjason, kristniboði segir hana grey, tík.

Og hún er líka dauðagyðja og tengist bæði himni og undirheimum eins og systir hennar Inanna í Súmeríu.  Inanna, sem gengur undir heitinu Ishtar í semískri menningu, var miðpunktur átrúnaðar í Mið-Austurlöndum í mörg þúsund ár, og fjallað er um hana í Biblíunni sem hóruna frá Babýlon.  Um hana eru til miklir og magnaðir kvæðabálkar, goðsagnir sem fylla heilar bækur og fljótlega fann ég að margt sem um hana er sagt endurómaði í stuttum og oft afbökuðum útgáfum af goðsögnum Freyju.  Með því að tengja þessar Freyjusögur við Inönnusögur, má oft finna dýpri merkingu og skýringar.

Ein af áhugaverðustu sögunum um Freyju er að finna í Sörlaþætti Flateyjarbókar, sem vitað er að er mjög lituð af kristnu áhorfi, en geymir þó mikilvæg minni um gyðjuna miklu, sem kristnir ritarar hafa væntanlega ekki haft skilning á og þannig ekki haft vit á að fjarlægja.

Tíminn leyfir ekki að þessi magnaða saga í heild sé sögð hér, það verður að bíða betri tíma, en í stórum dráttum er hún á þessa leið:

Freyja býr í Ásgarði og er frilla Óðins. Hún á sér skemmu, sem enginn hefur aðgang að nema með hennar leyfi.  Á þessum slóðum bjuggu á þeim tíma dvergar í steini og töluverður samgangur var milli dverganna og manna. Freyja gengur dag einn til steinsins og eru þá dvergarnir, sem eru fjórir, að smíða men mikið og fagurt. Freyja girnist menið og dvergarnir girnast Freyju. Það verður að samkomulagi milli þeirra að Freyja elski þá hvern og einn eina nótt og fái að launum menið, Brísingamen.  Það gengur eftir og Freyja gengur að morgni fimmta dags til skemmu sinnar með Brísingamen um hálsinn. Loki fylgist með og segir Óðni. Óðinn verður æfur af öfund, ekki er ljóst hvort vekur honum meiri reiði, ástin sem Freyja gefur dvergunum eða sú staðreynd að nú á Freyja Brísingamenið, hið göfgasta sköpunarverk dverganna.

Hann fær Loka til að stela meninu af Freyju, það tekst og Freyja ærist. Hún gengur í sal Óðins, í höllu Hárs, og heimtar að fá menið tilbaka. Óðinn neitar nema hún samþykki að koma af stað illindum milli tveggja voldugustu konunga heims og viðhalda þeim ófriði um ókomna tíð... og þarna reyndar freistast skrifarar til að blanda kristni í málið... en við skulum ekki eyða tíma í að fara í þá sálma.

Það sem hér er fjallað um, tel ég vera aðra mynd sögunnar af Gullveigu, hinni gullnu gyðju.  Fræðimenn og - konur hafa lengi velt vöngum yfir því hvað Brísingamenið er í raun. Hvort það er belti eða hálsmen, hvort það er úr gulli eða rafi o.s.frv.  Það er ekki kjarni málsins. Í mínum huga er Brísingamenið tákn fyrir menninguna, sem gyðjan finnur í iðrum jarðar, í draumunum, í samrunanum við ræturnar, dvergana. Brísingur er eldur. Það men sem skapast með eldinum er menningin, manneskjan aðgreinir sig frá náttúrunni. En konan, Gullveig, veit að menningin er í hættu ef tengsl hennar við náttúruna eru ekki ljós og meðvituð. Hún veit að ef hinn hálfblindi guð heldur á Brísingameninu, þá er voðinn vís. Hún er því tilbúin að fórna næstum hverju sem er til að gæta mensins.

Sagan úr Sörlaþætti er án efa afbökuð á ýmsan hátt en í henni liggja þræðir sem geta hjálpað okkur að skilgreina auð fortíðarinnar til að byggja á væntingar til framtíðar.

Óðinn kvaddi völvuna til sín úr iðrum jarðar, undirheimum... hún er Freyja og hún er völva og valkyrja allt í senn. Hún endar spá sína á því að lýsa fyrir okkur enn einni umbreytingunni, dauða jarðar og endurfæðingu.

Sól tér sortna,

sígr fold í mar,

hverfa af himni

heiðar stjörnur;

geisar eimi

ok aldrnari,

leikr hár hiti

við himin sjalfan.

 

Sér hún upp koma

öðru sinni

jörð úr ægi

iðjagræna;

falla fossar,

flýgr örn yfir,

sá er á fjalli

fiska veiðir.

                              

Og svo segir hún: Nú mun hún sökkvast.

 

 

Eftir ótal ferðir á vit Auðs/Auðar hef ég fyrir mig svarað spurningunum sem ég setti fram hér að framan:

Get ég fundið í rótunum mínum minningu um tíma sem getur verið mér og samtíðinni einhvers konar fyrirmynd fyrir framtíðina?

                Get ég í þeim arfi sem við köllum okkar sagnaarf eða menningararf fundið endurspeglun minna náttúrutengdu kvenlægu skoðana, hugsjóna og trúar?

Ég hef fundið svör fyrir mig, visku sem ég tel að við verðum að nýta ef við viljum sjá nýja jörð rísa úr sæ, eftir að hin gamla hefur sokkið.  Mér finnst ég skynja tengsl djúpt í rótum mínum, rótum okkar allra, við visku völvunnar, þekkingu sem er okkur nauðsynleg. Völvan bendir Óðni á að annað auga hans, Alföðurins,  liggi í Mímisbrunni og annað eyra Heimdallar, Verndara manna og goða, liggi falið í Urðarbrunni. Valdhafarnir eru hálfblindir og hálfheyrnarlausir, en skynfæri þeirra eru ekki týnd, þau liggja í undirdjúpunum. 

Eitt af þekktustu kvæðum Inönnu, drottningar himins og jarðar meðal Súmera, hefst á þessum orðum:

Hún lagði eyra sitt að göfgri jörð

Inanna lagði eyra sitt að göfgri jörð

Og síðan segir kvæðið frá ferð hennar á fund  systur sinnar undirheimagyðjunnar Ereshkigal.

 

Goð og menn verða að leggja eyrað að göfgri jörð og hlusta eftir skilaboðum völvunnar.

Vitið þér enn - eða hvað?

Mynd augnabliksins

vhbdimmuborgumilze.jpg

Heimsóknir

Ķ dag: 1710
Samtals: 5217969

Dagatal

« Febrúar 2019 »
SMÞMFFL
 12
3456789
10111213141516
17181920212223
2425262728 

Į nęstunni

Engir višburšir į nęstunni

Könnun

Hefuršu įhuga į nįmskeišum Vanadķsar?Sjį nišurstöšur
Sjį allar kannanir

Póstlistar


Deildarval

Framsetning efnis

Innskrįning