Launadraumur

 

Draumurinn um launajafnrétti

 

Valgerður H. Bjarnadóttir

 

Erindi flutt á málþingi um launajafnrétti í Ketilhúsinu 6. maí 2005

með meðfylgjandi PP "slæðum"

 

Fundarstýra, ágætu félagar, systur og bræður í baráttunni...

 

Að finna rótfestu er ef til vill mikilvægasta og jafnframt vanmetnasta þörf mannssálarinnar. Hún er ein þeirra þarfa sem erfiðast er að skilgreina.  Manneskja finnur rótfestu með því taka raunverulegan, virkan og eðlilegan þátt í lífinu í samfélagi sem verndar í lifandi formi, ákveðinn skilgreindan auð fortíðarinnar og ákveðnar skilgreindar væntingar til framtíðarinnar".

 

Þessi orð franska heimspekingsins Simone Weil úr bók hennar  L'Enracinement eða Að festa rætur, langar mig að gera að grunni umræðunnar um drauminn um launajafnrétti kynjanna.  Svona til fróðleiks þá var Weil vinkona og samstarfskona Simone de Beauvoir og Jean Paul Sartre, sem eru þekktari en hún í nútímanum og um Sartre verður fjallað á sérstöku málþingi hér á Akureyri á morgun.... (Simone Weil var hugsjónakona, sem valdi að afneita kyni sínu, vegna þess að hún upplifði kvenleika sinn veruleg hindrun í hugsjónastarfinu. Hún dó árið 1943, aðeins 34 ára, farin á sál og líkama vegna hugsjóna sinna m.a. virkri þátttöku í spænsku borgarastyrjöldinni og sem einn aðalhugmyndafræðingurinn í andspyrnuhreyfingu Frakka, en það er saga sem bíður betri tíma. )

 

Ef við viljum hafa áhrif á framtíðina verðum við að þekkja fortíðina. Til að skilgreina væntingar okkar til framtíðar, verðum við að skilgreina auð fortíðar, en jafnframt skuldina sem í fortíðinni býr. Draumurinn um launajafnrétti kynjanna verður þannig að innihalda skilgreindar væntingar okkar, og byggja á þekkingunni um það sem var, skilgreindum auði og skilgreindri skuld. Sú skilgreining fer eftir því hver horfir, hvernig, hvaðan og hvert.

 

Launamisrétti kynjanna er ekki einangrað fyrirbæri í nútímanum, það er einn þáttur í flóknu og víðfeðmu munstri nútímans, sem ofið hefur verið undanfarin árþúsund. En vefurinn hefur þróast og breyst, og undir því flókna munstri sem við sjáum og munum, er annað sem lengi var hulið og gleymt, en er nú smám saman að líta dagsins ljós og getur orðið að minningu um annan veruleika, annars konar auð, sem við þurfum að vekja og vernda í lifandi formi, sem næringu fyrir rætur draumsins.....

 

Launamisrétti, fátækt kvenna, valdaleysi þeirra og kynbundið ofbeldi, eru allt greinar af sama meiði. Þann meið kalla ég karlveldi. Hann er vökvaður og nærður af konum og körlum, sem trúa því að karlar séu fæddir til að stjórna, að þeir séu hinar sönnu fyrirvinnur fjölskyldna, þeirra sé skilgreiningarvaldið, og að þegar á reynir sé rétt að þeir ráði. Konum er ekki treystandi. Þetta er það sem við munum úr fortíðinni, þetta er hinn skilgreindi auður og/eða skuld þess samfélags sem við erum sprottin úr og rætur okkar liggja í. Aðrar greinar úr þessari fortíð sem enn má finna í lifandi formi í nútíðinni eru stríð, þrælahald, kúgun þeirra ríku á hinum fátæku, og valdbeiting mannsins gegn náttúrunni. Þau byggja á þeirri trú að styrkur felist í valdbeitingu, veikleiki í umhyggju. Þessi skoðun er svo rík í þeim forritum sem við fáum í vöggugjöf, og erum nærð á í karlstýrðu samfélagi, að jafnvel konur eins og ég, sem   hef alla mína fullorðinstíð lifað og hrærst í femínisma og jafnréttisstarfi, og lært að takast daglega á við hið harðasta karlveldi, jafnvel konur eins og ég, falla í gryfju karlveldisins kylliflatar af og til. Smám saman verður kona færari við að halda jafnvægi og standa fljótt upp ef hún fellur... en samt.

Það sem ég man, læri og þekki hefur bein og óbein áhrif á sjálfsmynd mína, hugsun og hegðun, væntingar og drauma, kröfur og skilgreindar þarfir.

Með öðrum og þekktari orðum, "það lærir barn sem fyrir því er haft". Þetta vitum við. Og hvað er fyrir okkur haft. Um hvað snúast fréttir? Hverjir stjórna heiminum. Hér þarf í raun hvorki að bregða upp myndum, né nefna dæmi, þið þekkið veruleikann.

 

Við byggjum þennan veruleika á því sem við munum og þekkjum úr fortíðinni, við verndum hann í lifandi formi og út frá honum skilgreinum við væntingar til framtíðarinnar, ýmist í takt við þessa fortíð, eða sem andstæðu hennar. Það er þekkt fyrirbæri í fjölskyldum, að börn ýmist endurtaka niðurbrjótandi hegðun foreldranna eða snúast gegn henni með því að taka upp andstæða hegðun. Í báðum tilvikum eru börnin fangar þess munsturs sem þau ólust upp í. Þau hafa tileinkað sér tvíhyggju, sem er eitt aðaleinkenni karlveldisins. Leiðin út úr fangelsinu er að læra að skilja hegðunina og tileinka sér óskylda hegðun. Tvíhyggja er "annað hvort eða" hugsun... Samkvæmt henni getum við ekki verið bæði og, við erum annað hvort eða, góð - vond, undir eða yfir. Þau trúarbrögð sem tilheyra þessari hugmyndafræði skilgreina guð sem góðan, og svo annað afl, óskylt guði, sem hið illa, djöfulinn. Guð býr á himnum, djöfullinn í iðrum jarðar. Konur hafa verið skilgreindar af þessum trúarbrögðum sem skyldari djöflinum en guði, en karlinn hefur verið sjálfskipaður fulltrúi hins góða guðs. Þessi trú skilgreinir andann sem æðri efninu, náttúran og konan tilheyra efninu, karlinn og vísindin andanum, konan og náttúran eru viðfangið sem skal beislað, karlinn gerandinn með guð á bak við sig. 

 

Í tengslum við dauða Jóhannesar Páls páfa, var viðtal í Kastljósinu við tvo mæta kaþólikka, karl og konu, sem ég áleit nokkuð víðsýnt og skynsamt fólk. En hvað kom í ljós. Þau voru innt eftir skoðun sinni á því að innan kaþólskunnar fá  konur ekki að gegna embætti prests. Það fannst þeim eðlilegt, fannst erfitt að ímynda sér konu í því embætti og álitu að þau mundu ekki bera sama traust til konu eins og karls. Enda hafði fyrrum páfi, með dyggri aðstoð núverandi páfa, sent heiminum bréf fyrir stuttu, þar sem áhersla var lögð á að konan skyldi tileinka sér eiginleika Maríu meyjar, sem þeir skilgreindu sem hlustandi, auðmjúkar, tryggar og bíðandi. Um daginn var líka viðtal við lúterskan prest í Reykjavík, en þar fá konur af gegna embætti presta og viðmælandinn var kona. Hún var  spurð hvað Guð væri í hennar huga. Hann er faðir minn, sagði hún. Spyrjandinn, Jónas Jónasson, spurði þá aftur nokkuð hissa: ekki móðir....? Nei, faðir, sagði konan. Þetta kann að þykja óskylt efninu um launajafnrétti kynjanna, en það er það ekki, það er nákvæmlega þarna sem hundurinn liggur grafinn. Karlinn er enn í huga okkar nær almættinu, hann er ofar í píramídanum, hann er skapaður í mynd guðs, hann er meira virði en við, hann á að fá hærri laun. Þessi mynd er grafin í huga okkar hvort sem við skilgreinum okkur sem trúuð eða trúlaus, hún er ein af meginundirstöðum menningar okkar.

Á meðan við byggjum valdastofnanir samfélagsins á þessarri hugmyndafræði föðurins, verða konur ekki virtar til jafns við karla, hvað sem öllum lögum og reglum líður. Til að gera raunverulegar breytingar fyrir framtíðina, verður við að finna og skilgreina nýjan grundvöll, annars konar, ekki andstæðu.. heldur aðra tegund. Við verðum að finna auð úr fortíðinni, sem getur verið hugmyndafræðilegur grunnur fyrir framtíð. Auðvitað hvorki getum við né viljum, endurtaka fortíðina, við getum ekki náð okkur í tilbúið módel til að byggja eftir,  en við getum víkkað sjóndeildarhringinn, munað meira, dýpra og víðar, náð í minni sem hjálpar okkur upp úr úreltum hjólförum karlveldisins, hjálpar okkur að muna eftir konunni, eftir sjálfum okkur, sem virtri veru......

1.maí sat ég í minni sveit, fór yfir gamla drauma og dreymdi nýja, og tók þátt í baráttudeginum með hjálp útvarpsins. Ég hlustaði á baráttusöngva, viðtöl og ávörp og greindi í þeim ótal drauma sem ýmist hafa orðið að einhvers konar veruleika, umbreyst í nýja eða eru nú ekki annað en brostnar vonir. Þannig var með alræði öreiganna, tilraunina sem verkalýður fyrir öldu batt allar sínar vonir við, hún mistókst. Draumurinn um kommúnisma í Sovét, þar sem jafnrétti og réttlæti voru einkunnarorð, varð að martröð fyrir flest þau sem dreymdi hann. Þá dreymdi þau draum um annars konar réttlæti, byggt á andstæðu kommúnismans, kapítalisma, markaðshyggju, og nú er hann martröð. Gífurlegt atvinnuleysi, flest fólk á ekki í sig eða á meðan örfáir baða sig í peningum, spilling tröllríður samfélaginu og börn sumra dreymendanna eru orðin slík markaðsvara að þau eru seld í kynlífsánauð ýmist í eigin landi eða öðrum. Konur eru hræddar við að fæða börn í þennan heim og mansal er orðin ábatasamasti bisnessin í fyrrum Sovét við hlið eiturlyfjasölunnar og stríðsins.

Þá verður tilfinningin sú að varasamt sé að láta sig dreyma. Og það er varasamt.

Ég átti mér einu sinni draum um að Akureyrarbær yrði fyrirmynd annarra sveitarfélaga hvað varðar jafnrétti kynjanna, bæði innan kerfis og utan. Ég átti mér þann draum að þessi bær gæti státað af launajafnrétti kvenna og karla, hann yrði þekktur fyrir að bjóða konum og körlum sömu tækifæri til ábyrgðarstarfa, listsköpunar og félagsstarfa. Síðast en ekki síst, þá yrði Akureyri sannur fjölskyldubær, þekktur fyrir félagslegt stuðningskerfi sitt og sjálfsstyrk og samkennd kvenna og karla, þannig að smám saman heyrði það sögunni til að konur og börn væru hér beitt ofbeldi, að smám saman lærðu bæði kynin að ofbeldi og misbeiting valds er tákn um veiklyndi, ótta og óöryggi þess sem beitir því, en ekki styrk, hreysti og hetjuskap.

Hvernig fór? Varð þetta bæjarfélag fyrirmynd annarra? Nei, það fór svo að Akureyrarbær varð öðrum víti til varnaðar á jafnréttissviðinu. Reyndar lít ég svo á að Akureyri sé hvorki betra né verra sveitarfélag en önnur í þessu landi, það sem gerðist var að misréttið varð sýnilegra hér en annars staðar, vegna draumsins, vegna væntinganna. Við skilgreindum nefnilega ekki nýjan auð úr fortíð, við gleymdum því, við skilgreindum eingöngu skuldina og byggðum væntingarnar á henni.  Og afleiðingarnar komu á óvart.

Þannig hafði ég ekki látið hvarfla að mér, að ein lítil tilraun til að bera saman sex stjórnunarstörf hjá Akureyrarbæ í þeim tilgangi að sýna bæjaryfirvöldum fram á sambærileika kvenna- og karlastarfa, og leiðrétta augljóst misrétti, yrði grunnur að margra ára málaferlum. Að andvökunóttum og sársauka hjá þeim konum sem um ræðir. Átökum sem sigur þeirra bætir líklega aldrei að fullu. Að þessi tilraun til að gera Akureyrarbæ að fyrirmynd yrði til þess að sverta ímynd bæjarins þannig að hann yrði tákn um launamisrétti kynjanna og aðhlátursefni út fyrir landsteinana.  

Ég hafði heldur ekki séð fyrir að bærinn þar sem unnið var markvisst að jafnvægi og sjálfsstyrkingu kvenna og karla, frá leikskólum og til fullorðinsára, þar sem fram fór fyrsta átakið hérlendis gegn kynferðislegri áreitni og þar sem konur höfðu náð að leiða bæjarstjórn í sérstöku kvennaframboði, yrði þekktur sem Súlustaðabærinn. Að harðfullorðnir karlar og ungir menn og jafnvel konur, sem aldrei höfðu fundið hjá sér þörf til að heimsækja höfuðstað Norðurlands, fjölmenntu skyndilega þangað til að kaupa sér kynlíf frá erlendum stúlkum í þrælkunarbúðum. (Þessi mynd er sem betur fer liðin tíð).

Ráðalaus og sorgmædd yfir brostnum vonum og draumum sem urðu að martröðum fór ég fyrir nokkrum árum að leita að annars konar auði úr fortíðinni. Auði sem hægt væri að byggja á nýjar og traustar væntingar til framtíðar. Ég leitaði í sagnaarfinum og fann að lokum skilgreindan auð úr fortíð okkar, sem mig dreymir nú um að geti orðið grunnur að framtíð jafnréttis og friðar. Á síðustu öld höfum við smám saman verið að uppgötva fortíð sem við vorum að mestu búin að gleyma. Hún var til í lifandi formi í ævintýrum og goðsögnum, en við höfðum afgreitt þá heimsmynd sem hluta af heimi barnsins eða ímyndunaraflsins. Nú er hins vegar að koma í ljós, í kjölfar ótal fornleifafunda og samvinnu kvenna og karla innan ólíkra vísindagreina, að fyrir tíma karlveldsins voru til annars konar samfélög, þar sem Gyðjan var miðja lífsins og guð hafði um tíma mynd systkina, Freys og Freyju, jafnvirtra, jafnmikilvægra. Í þeirri heimsmynd er jörðin jafnmikilvæg himninum, þau eru heilagt par, jafnmikilvæg, jafnrétthá. Þar er hið helga brúðkaup, þar sem guðinn og gyðjan gefa sig hvort öðru í ást og jafnvægi, forsenda þess að hringrás lífsins haldi áfram, vor komi eftir vetur, dagur eftir nótt, líf eftir dauða, friður haldist og frjósemi eflist, vegna samspils, jafnvægis hins kvenlæga og karllæga. (Í þessu sambandi er gaman að minna á að orðin friður, friðill og frilla eru samstofna, náskyld.)

Viðhorfið til kynlífs, annars vegar sem helg athöfn og hins vegar sem markaðsvara tengd valdi, ofbeldi, synd og skömm, er ein grundvallarforsenda ólíkra viðhorfa til kvenna og karla, sem leiðir að lokum til launamisréttis.

 

Simone Weil starfaði með andspyrnuhreyfingunni frönsku í síðari heimsstyrjöldinni og hafði það hlutverk að móta hugmyndafræði hins nýja Frakklands eftir stríðið. Hún fann ekkert tilbúið módel til að byggja á og fjallar um mikilvægi þess að láta ekki skortinn á framtíðarsýn stöðva okkur í að taka á bláköldum veruleikanum. Við höfum hér í dag rætt um formleg og óformleg launakerfi, um gamlar og nýjar reglur, dóma og réttlæti. Og auðvitað þurfum við áfram að horfa á einstök verkefni, taka á því sem er bilað eða úrelt og skapa ný tæki sem duga betur en þau gömlu. Við þurfum að gera hvort tveggja í senn, skapa okkur nýja sýn, nýjan grunn til að byggja drauminn á, koma honum í lifandi form og jafnframt þurfum við að gera að netunum.

 

Ég hef undanfarna mánuði, reyndar heilt ár, setið í vinnuhópi, sem var ætlað að afnema allan tilviljanakenndan og ógegnsæjan mismun í launum starfsmanna bæjarins, þ.e. afnema mismunun og koma á réttlæti, jafnrétti með nýjum reglum. (Í samræmi við framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar í jafnréttismálum). Okkur var ætlaður mánuður, en það orðið ár..og ekki lokið enn,. því það er ekki auðvelt, það er það svo sannarlega ekki. Ég er reyndar þeirrar skoðunar að það sé nánast ógerlegt að skapa fullkomið jafnrétti í kerfi sem byggir á því að sum störf séu meira virði en önnur, og starfsframlag sumra meira virði en annarra. Þetta er eitt einkenni samkeppnissamfélags og það viðheldur mismunun, sem endurskapar sig í hvert sinn sem við færum peðin til á skákborðinu. Hvert okkar er þess umkomið að meta hvað er meira virði en annað. Hver á að fá og hver ekki...? 

 

Öll slík flokkun er í raun blekking, röðun í launaflokka verður aldrei annað en endurspeglun forritunar og fordóma, sem eru síbreytileg. En við búum við kerfi sem ekki er hægt að afneita og innan þess verðum við að vinna. Það var stórkostlegt skref í átt til launajafnréttis kynjanna, þegar einhver ákvað að launatöflur allra félaga í BHM skyldu verða samræmdar. Á sama hátt er það stórt og mikilvægt skref að koma á samræmdu starfsmati, helst allra stétta hjá sama vinnuveitanda. Því að þegar við vöknum og förum að túlka drauminn, þá verður okkur ljóst að þeim mun meira sem við einföldum, þeim mun nær komumst við jafnréttinu. Við ákveðum að laun kvenna og karla skuli verða jöfn, við ákveðum það vegna þess að við höfum skilgreint veruleikann á nýjan hátt og lært að muna að konur og karlar eru jafn mikils virði.  Við höfum skilgreint skuldina og fundið auð til að greiða hana með.

 

Konan eða þrællinn sem býr við ofbeldi, aðlagar sig að ógninni, og reynir ávallt að þóknast, þótt hún viti að allt sem hún gerir verður notað gegn henni.  Á meðan kvenþjóðin þarf að lifa og aðlaga sig að karlveldinu á sama hátt verður ekkert jafnrétti í raun. Á meðan íslenska þjóðin trúir því að "ef konur bara" þetta eða hitt .. þá muni þær fá það sem þeim ber, hvort sem er frið frá ofbeldi eða laun og áhrif til jafns við karla, þá verður draumurinn eilíflega að martröð. Konan í þessu landi er löngu búin að uppfylla öll skilyrði til að vera virt sem jafnoki karlsins, og ætti amk að fá sömu laun og hann og sömu möguleika til áhrifa. Hún þarf ekki að mennta sig betur, styrkja sig enn frekar, vinna meira og vera lengur á vinnumarkaði eða gera sig meira fitt og fallega. Við þurfum bara öll, karlar og konur, að vakna, og muna, bíta saman í hið sæta epli skilningstrésins og leyfa draumnum að rætast.

Og að lokum vil ég fá að vitna í aðra merka konu, litháenska fornleifafræðinginn og hugsjónakonuna Mariju Gimbutas. Hún er sú sem á einna mestan heiður að því að gefa okkur nýja fortíðarsýn fyrir framtíðina:

     Við verðum að horfa á söguna frá nýjum sjónarhóli, endurskilgreina heildarminni okkar. Nauðsyn þessa hefur aldrei verið meiri en nú, þegar við uppgötvum að leið ,,framfaranna" er að gereyða lífsmöguleikum okkar á þessari jörð.

 

Lokaslæður... án talaðra orða

 

Völuspá   

 

Sól tér sortna,

sígr fold í mar,

hverfa af himni

heiðar stjörnur;

geisar eimi

ok aldrnari,

leikr hár hiti

við himin sjalfan.

                        Völuspá, st. 57

 

Sér hún upp koma

öðru sinni

jörð úr ægi

iðjagræna;

falla fossar,

flýgr örn yfir,

sá er á fjalli

fiska veiðir.

                        Völuspá, 59. vísa

 

 

 

 

Mynd augnabliksins

thorunn_hyrna_25.okt.jpg

Heimsóknir

Ķ dag: 6093
Samtals: 5388671

Dagatal

« Janúar 2019 »
SMÞMFFL
 12345
6789101112
13141516171819
20212223242526
2728293031 

Į nęstunni

Engir višburšir į nęstunni

Könnun

Hefuršu įhuga į nįmskeišum Vanadķsar?Sjį nišurstöšur
Sjį allar kannanir

Póstlistar


Deildarval

Framsetning efnis

Innskrįning